Sunday, October 31, 2004

spenna

Jæja nú eru brennslurnar yfirstaðnar og ég búin að opna ofnana, algjört spennufall í gangi. Ég var mjög glöð með útkomuna á flest öllu, annað skil ég eftir. Svo nú er bara eftir að pakka þessu fíneríi vandlega og setja í kassa og senda af stað.
Ég fór óvænt og sá stóra, stóra keramiksýningu í nútímalistasafninu í Kyoto, þar sem sýnd voru verk eftir Yagi Kanzuo (1918-1979) sem talinn er vera með þeim fyrstu að gera "objecktiva" hluti úr leir.
Ég kem til með að senda heim stóran búnka af bókum og sýningarskrám af hinum ýmsu sýningum héðan. Þetta er svo spennandi doðrantar, sýningarskrárnar og svo ódýrar, gerir það mjög freistandi að kaupa á hverri sýningu. Svo það eru ca. 15 kg. sem ég sendi með leirnum....... svo ég lendi ekki með töskuna í yfirvikt, það er dýrt spaug...........
Rólegt hjá mér í dag hálfgert slugs eftir að ég opnaði ofnana. Ég er að reyna að gera upp við mig hvort ég eigi að fara til Osaka í lok vikunna og skoða sýningar og fleira spennandi. Er að skoða hvað er í boði þessa daga sem ég á frí.
subbubjallan

Thursday, October 28, 2004

hljoð, hiti, litur, lykt (kannski brunalykt)

Jæja nú er ég á vaktinni yfir stórum, stórum gasofni því nú er ég að brenna glerungabrennslu, jibbý. Ekkert smá spennt að sjá útkomuna, gerði heilmiklar tilraunir og naut þess að sulla með glerunga sem ég hef aldrei snert á áður. gaman gaman. (þangað til annað kemur í ljós)
Ég þarf að kíkja á hitastigið á klukkutíma fresti, hækka þrystinginn á gasinu, hleypa lofti inn í ofninn draga lúgulokið 2 mm í einu, skoða litinn á eldinum má bara vera blár ekki rauður, mæla stærðina á eldtungunni sem kemur út um kíkjugatið á hurðinni, passa að hún sé ekki lengri en 25 sm þá er reductionin of sterk ...... þá hækkar ekki hitinn í ofninum svo þarf líka að hlusta eftir hverning blásturshljóðin eru í ofninum. Svo það sér hver maður að þetta er heilmikið jobb. Svolítið stessandi því ef hitastigið fer að klikka getur verið erfitt að finna aftur jafnvægi svo hitinn trukkist áfram upp. Fekk símanúmer hjá starfsmenni til að hringja í í neyð. Fyrir óvana getur þetta snúist upp í algjöra martröð eins og gerðist hjá belgísku vinkonu minni og portugalanum, þau voru að brenna til kl fimm og náðu samt ekki topphita. Hugsa til þess með hryllingi get ekki hugsað mér að lenda í svoleiðis vitleysu. En hér eru allir boðnir og búnir að hjálpa mér, tengdadóttirin tilvonandi var að bjóða fram aðstoð í þessum töluðu orðum. (ef gengur ekki að fá hana sem tengdadóttir ætla égi að ættleiða hana eða eru einhver aldurstakmörk á þeim gjörningi getur það verið ...... )
Nú er búið að setja kyndingu á húsið og er það algjör luxus ég var orðin ansi samanhert af kuldanum undanfarna daga, eins og fleiri. En haustið er yfirnáttúrulega fallegt hérna, birtan og litirnir. Fekk reyndar svo fallegar haustmyndir að heiman í vikunni, var farin að gleyma hversu fallegt veðrið getur verið á þessum tíma. Haustið er mitt uppáhald.
Best að hlaupa út og athuga ofninn aftur.

Bless í bili elskurnar mínar, subbubjallan

Saturday, October 23, 2004

Júmms, ferðin til Kyoto gekk að óskum, við hlykkjuðumst allof mörg, í litlum kraflausum sendiferðabíl og einn í kremju í "skottinu". Byrjuðum á mac donalds af því einn úr hópum er frá N.Y. og hann fekk sér þrjá hamborgara. Mer fannst ég rétt nýbúin að kyngja morgunnmatnum og ekki ýkjahrifin (en fekk mér kaffi í staðinn) Síðan var farið á markaðinn sem var yndislegur, svo margt fallegt að sjá. Markaðurinn er haldinn 21. hvers mánaðar í gömlum garði innanum musteri of fleira fallegt. Eg keypti sossum ekki margt en fannst þetta spennandi og gaman.
Fórum síðan á súsiveitingastað þar sem maður velur sér súsídiska af belti sem gengur hringinn á veitingastaðnum, mjög gott og ódýrt. Og þar sem hollendingurinn í hópnum átti afmæli bauð hann okkur hinum uppá köku og kaffi á veitingastað sem er í húsi sem Tadao Andó teiknaði og er staðsett við síkji í miðbænum. Fallegt hús en veitingastaðurinn frekar geldur. Fórum síðan á bar eða klúbb það var mjög skrítið....tveir plötusnúðar sem voru aftast á dansgólfinu en þunnt gasefni sem skildi á milli. Siðan var varpað ljósashowi á efnið, mjög flott. Fín tónlist og það sem gerði útslagið voru tveir bongótrommuleikarar sem voru á hnjánum hlið við hlið á dansgólfinu sem gerði þetta mjög kraftmikið og flott. Í byrjun hreyfði fólk sig aðeins á gólfinu en allir snéru að plötusnúðunum.....en þegar leið á kvöldið færðist aðeins meira fjör í mannskapinn. Aðalega útlendingar sem þurftu pláss til að dansa. Það var stöð... Eitt annað öðruvísi það var stúlka sem málaði þá sem það vildu skrautmálingu í andlitið, við kertaljós. Mjög vinsælt og við buðum hollendingnum upp á meðferð í tilefni dagsins. Þarna var dansað framyfir miðnætti þá farið með lest að bílnum og brunað heim. Allir uppgefnir en alsælir, fínn dagur.

Daginn eftir lagði þennan illa daun úr þvottahúsinu sem reyndist af kímanó sem hollendingurinn hafði verið svo rausnalegur að kaupa fyrir konuna sína. (hann keypti reyndar á alla fjölsdylduna en þessi lyktaði svona svakalega) Síðan hefur þessi dýrgripur hangið fyrir utan útihurðina hjá okkur og leggur dauninn af vitum manns þegar meður gengur framhjá. Eg held hann ætti að splæsa í ilmvatnsglas handa henni svona til að gera þetta bærilegt.
Subbubjallan

Wednesday, October 20, 2004

Lurkur

Sæl nú.
Dreymdi hana móður mína í nótt og það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég vaknaði, var að nú fengið ég góðar fréttir að heiman. Sem reyndist svo rétt...............Alveg eins og maðurinn, sem sagðist vera orðinn svo bergdreyminn og kom með dæmt því sönnunar: hann hafði dreymt að hann væri að borða kringlu og viti menn hann fór í bakarí daginn eftir og fekk sér kringlu. Svona getur nú lífið verið einfalt á köflum.
Það hefur verið rignig, algjört úrhelli samfleitt í tvo daga sem endaði með að fellibylur (númer hundrað eða eitthvað) gekk yfir með rokkvelli. Var reyndar ekkert miðað við annarstaðar í Japan. Fimmtán manns létust og tuttugu er enn saknað á suðurhluta landsins. Frekar illur.
Það er spáð sólskini á morgunn og við ætlum að storma til Kyoto á flóamarkað, hann er haldinn einu sinni í mánuði og er algjört ævintýri. Síðan ætlum við út að borða því einn af hópnum á afmæli á morgunn. Gaman, gaman.
Fréttir af því næst.....
subbubjalla

Monday, October 18, 2004

sjöhundruð í rusli.

Hvað hef ég verið að gera?? Jamms hef verið í rólegheitum í dag að snuddast í ýmsum smáverkum. Td. við að reyna að ná 700 ljósmyndum úr ruslakörfunni á iphotoinu á fínu tölvunni minni og setja í möppu, gekk ekki alveg þrautarlaust. Þetta voru ekki einu sinni mínar eigin myndir heldur frá "hollendingum fljúgandi" en það hafðist að lokum. Eg hef þurft að leggjast fyrir annað slagið til að draga úr bólgu á öðru augnlokinu. Svei mér þá ef útlitið á Rocky, eftir stóra bardagann í hringnum, hefði verið eins og barnagaman í samanburði. Hjá mér hinsvegar var þetta ekki bardagi í hringnum heldur sætur koss frá moskítóflugu sem hafði lætt sér inn í herbergi meðan ég svaf.
Svo hef ég verið að smá draga úr vinnu (ekki aðvelt) á vinnustofunni enda ekki lengur tími til að þurrka leirinn. Svo til að forðast óþarfa stress og panik í lokin er best að fara að setja punkt. Skrifaði nokkur póstkort og hafði það kósí undir sæng.

Er að reyna að lokka Tamomí "tengdadóttirina tilvonandi" til að skipuleggja ferð til Íslands þarf að setja af stað fjáröflunarprógrammið. Sjáum hvað setur með það!!

Hef ákveðið að fara í sporttúr til Naoshima sem er lítil eyja sem spennandi er að skoða. Þar er t.d. nútímalistasafn sem teiknað er af Tadao Ando sem er nú ástæða útaf fyrir sig, þvílíkur snillingur sem maðurinn er. Planið er að klára hér allt fyrir 6.nóv fara þá til Kyoto geyma hluta af farangrinum á hoteli skella sér með Shinkansen (hraðlest) og ferju til Naoshima og gista í Pao eða tjaldi sem hægt er að leigja. Sneddí. Þessi eyja er mjög spennandi ...fer svo til baka til Kyoto og verð síðustu dagana og skoða borgina aðeins betur, það er endalaust áhugavert. T.d. frægir fallegir garðar, spennandi söfn, ýmis musteri og kannski, kannski bara nokkrar pínulítlar verslanir. Þá verð ég nú farin að vera ansi óróleg(og farin missa einbeytinguna) hef ég trú á og vill fara að komast heim til mín.

subbfríður subbubjalla...

Friday, October 15, 2004

Islandspostur

Jæja þá er ég búin að brenna fyrstu hrábrennslunna hér og nú er að bíða og sjá hvernig hvort hlutirnir "þola" gasið.
Ég hef verið órtúlega dugleg að skella mér í skokkið í morgunsárið. Er mest hissa sjálf, svei mér þá. En veðrið hefur verið ómótstæðileg til þess arna, bjart og mátulega hlýtt. Garðurinn er frábær kjörinn til hreyfinga..................
Heilmikið fjör hér í kvöld verið að kveðja ungverjann, hann er sá eini sem ekki hefur verið almennilega sáttur hér á staðnum. Enda er hann trúlega best geymdur heima...............
Er farin að skipuleggja síðustu dagana hér í Japan ætla aðeins að koma við í Kyoto í lokin.... mjög spennandi borg sem ég ætla að skoða aðeins betur.
Hef verið að vinna í því hörðum höndum að ná í "eiginkonu" fyrir soninn Hrein og nú er þvílík spenna hér í gangi..(það byrjaði á því að ég sagðist vilja japanska tengdadóttur!!!!) Hef eina í sigtinu hún heitir Tamomi og henni fannst hugmyndin alls ekki galin. Hún er sérlega elskuleg og góð og svo er hun mjög góður kokkur!!!! Hörku nagli og spennandi listakona. Er hægt að biða um meira. Er að reyna að sannfær soninn og hann kom með þá tillögu að senda hana í pósti til Íslands.....
Subbubjallan

Tuesday, October 12, 2004

björn hvar ertu björn

Eg fór út að skokka snemma í morgunn í yndislegu veðri.....svolítið ánægð með mig verð ég að segja. Nú er að verða meira freistandi að vera úti, ekki eins heitt og ég farin að venjast skordýrunum betur. Það er sossum allt í lagi með skordýrin og snákana eftir síðustu fréttir sem eru að þær, að það eru villtir birnir hérna í skóginum.....hummm. Og eftir að fólk hefur verið að viðra hundana hérna í garðininum og rignir á eftir, renna þeir á lyktina!!! URRRRRG

Subbubjallan

Monday, October 11, 2004

heimþra

Er með heimþrá.................................................................var að tala við soninn Hrein og kveðja hann því hann er á leiðinni austur í Kárahnúkavirkjun að vinna. Þessi elska er svo órtúlegur nagli......
Hamaðist með látum á vinnustofunni, fór á reiðhjólatúr ætlaði á pósthúsið en lokað í dag því það var einhver hátíðisdagur í gær. Svolítið óútreiknanlegir frídagarnir hérna í Japan. En sneddí að hafa líka lokað eftir frídaga, tökum það upp heima.... ha
subbubjallan

Sunday, October 10, 2004

leir meiri leir

jamms
I dag var mjög skemmtilegur markaður hér í garðinum. Ýmiskonar leirmunir til sölu frá svæðinu hér í kring, en þessi hluti Japans er einmitt þekktur fyrir langa og merkilega keramikhefð.
Mér fannst í reyndar algjör óþarfi að byrja með þessum látum rúmlega átta í morgunn. Það var byrjað með tilkynningum í því öflugasta hátalara kerfi sem ég hef nokkurntíma hlustað á.( ég er búin að sjá hversu ýktir japanir geta verið og þetta var rakið dæmi um það) Í raun áttir markaðurinn að vera í gær en var frestað vegna fellibyls sem gekk yfir hluta landsins. En viti menn hér skein sól í heiði í morgunn og gott veður allan daginn. Það hafði rignt allan daginn í gær svo grasið var gegnumsósa af bleytu. (og ég á sandölunum)
Eg freistaðist til að kaupa (er nú alltaf svolítið veik fyrir leirnum) bolla og stadíf undir prjóna (þessa sem maður borðar með ég ætla nefnilega að halda áfram að nota prjóna eftir að ég kem heim og kenna hinum fjölskyldumeðlimum kúnstina líka). Frábært.
Subbubjalla

listakonukokkur

Nú er ný lína í gangi. Er að læra að elda japanskan mat af fullri alvöru. Það er ein japönak listakona tekur okkur útlendingana í kennslustundir í elshúsinu á kvöldin. Hún er sko listakokkur og mikil stemming í gangi hjá okkur. Mér finnst ég að verða ansi góð í misó-súpugerð. Bara ánægð með mig.
Ég hef líka verið í hörkuvinnustuði á vinnustofunni og nýt þess að fullu.

Wednesday, October 06, 2004

Jæja það var heilmikið fjög hér í garðinum í dag, byggður einn leirbrennsluofn. Einhverskonar reykbrennsluofn, olíukynntur. Lærdómsríkt að fylgjast með því. Annars hef ég verið að vinna á fullu finnst eins og ég sé svolítið farin að falla á tíma......... er að fá hugmyndir sem mér finns að ég verði að klára. Er enn að vinna í leirinn hef rúma viku eftir svo þarf að fara að huga að brennslum, glerjun og pökkun oþh. Svo er búið að plana einhverja dagstúra á söfn oþh. svo tíminn þýtur áfram núna............Það var heilmikil veisla hér í gærkveldi verið að bjóða nýkomna listamenn velkoma, með þvílíkum veisluföngum. Það er einn frá Hollandi og annar frá USA svo það eru að fyllast aftur vinnustofurnar.
Bless í bili,
Subbubjalla

Saturday, October 02, 2004

sokkaveður

Það er kominn "vetrartími" hér.....nú á að fara að slökkva á kælingunni í hérbergjum og á vinnustofum. Eg fekk nýja sæng sem er amk. helmingi þykkari en sú sem ég var með áður. Við þessar breytingar fekk ég svo flensu og er búin að vera hálf slöpp í gær og í dag. Mér finnst reyndar fullsnemmt að fara að hugasa um veturinn er nýfarin að vera í sokkum og ermalöngum bol á vinnustofunni.
Verð vonandi á fullu tempói á morgunn!!!

Subbubjalla

Friday, October 01, 2004

svo margt

Það er svo merkilegt að upplifa í Tokyo allan þennan fjölda fólks. Þar er íbúatala rúmar 12 milljónir !! Ég var alveg heilluð af borginni með fullri virðingu fyrir henni Reykjavík okkar. Það er eitthvað alveg geggjað í gangi í þessari borg sem erfitt er að útskýra....ekki bara stærðin og fjöldinn heldu líka svo margt, margt, annað spennandi...........
Subbubjalla